Skip to content
Bjarni Rúnar Einarsson edited this page Aug 12, 2016 · 12 revisions

Algengum Spurningum Svarað

Hér eru fyrstu drög að svörum við algengustu spurningum um kosningakerf íslensku Píratanna. Til bráðabirgða er þessi texti hýstur á sama stað og kóði kosningakerfisins, en væntanlega verður hann fluttur í betra heimili þegar fram líða stundir.

Um kosningarétt

Er ég með kosningarétt?

Kosningaréttur í prófkjörum Pírata fer yfirleitt eftir lögheimili og hve langt er síðan þú skráðir þig í félagið. Þú þarft að vera búsett/ur í réttu kjördæmi og hafa verið skráður í Pírata í að minnsta kosti 30 daga. Kosningaréttur í málefnakosningum lýtur öðrum lögmálum.

Ég er ekki skráð/ur í kosningakerfið, er ég þá ekki með kosningarétt?

Allir Píratar geta skráð sig í kosningakerfið hvenær sem er. Kosningakerfið flettir þá upp í félagatali hvenær viðkomandi gekk í félagið og í hvaða kjördæmum og aðildarfélögum viðkomandi hefur þátttökurétt.

Ég bý erlendis, er ég þá ekki með kosningarétt?

Þú hefur kosningarétt í því kjördæmi þar sem þú síðast áttir lögheimili á Íslandi. Til að nýta þér þann rétt þarftu að hafa samband við kjörstjórn, framkvæmdaráð eða framkvæmdastjóra (verkaskipting er mismunandi eftir kosningum).

Kjörseðill og kosningar

Þegar ég er búin/nn að skrá mig inn í kosningakerfið, hvert fer ég þá til að kjósa?

Flestar kosningar birtast á forsíðu Pírata. Í einhverjum tilfellum kann að vera að kosning sé einungis sýnileg í "undirþingi", en þá þarf að smella á orðið "Píratar" efst til vinstri á síðunni og velja svo rétt þing úr listanum.

Athugaðu að ef atkvæðagreiðsla er ekki hafin, þá geturðu séð lista yfir þá sem hafa tilkynnt framboð sitt, án þess að geta greitt atkvæði. Upphaf atkvæðagreiðslu kemur þá fram efst á síðunni.

Hvernig á ég að kjósa? Hversu marga?

Þú ræður hve marga þú kýst.

Kjörseðill með einum aðila er fullgildur, sem og kjörseðill þar sem öllum frambjóðendum er raðað. Og allt þar á milli!

Mælt er með því að þú kjósir eins marga og þú hefur skoðun á og vilt sjá gegna embætti, raðað í forgangsröð þar sem uppáhalds frambjóðendur þínir eru efstir á listanum. Ekki er ráðlagt að raða fólki handahófskennt eða eftir einhverju "kerfi", kosningin gefur bestu útkomu ef þú kýst bara þá sem þú hefur raunverulega skoðun á.

Til að breyta röð frambjóðenda sem komnir eru á kjörseðilinn skal nota örvatakkana eða draga þá til með músinni.

Get ég breytt kjörseðlinum mínum?

Þú getur breytt kjörseðlinum þínum hvenær sem er, fram að lokum kosninganna.

Hvað gerist ef ég eyði einhverjum út af kjörseðlinum og bæti inn á aftur?

Þegar þú eyðir frambjóðanda af seðlinum og bætir inn aftur, raðast hann neðst á kjörseðilinn. Þú getur fært hann aftur á sinn stað með því að draga hann til eða nota örvatakkana.

Hvers vegna birtast ekki allir frambjóðendur á kjörseðlinum?

Ef kosningarsíðan er skoðuð áður en atkvæðagreiðsla er hafin, þá getur verið að sumir frambjóðendur eigi eftir að skrá sig inn og tilkynna framboð sín. Þetta getur gerst þó að viðkomandi sé búin/n að tilkynna framboð á öðrum vettvangi, kerfi Pírata eru ekki öll samtengd og samkeyrð jafnóðum.

Ef frambjóðanda vantar eftir að kosning er hafin, þá má vera að viðkomandi hafi dregið framboð sitt tilbaka.

Get ég fylgst með kosningum á meðan á þeim standa?

Hver kosning hefur sína eigin vefsíðu þar sem frambjóðendur birtast jafnóðum og þeir gefa kost á sér, og sjá má tölur sem segja til um hve mörg atkvæði hafi verið greidd. Með því að endurhlaða síðuna (e. reload) má sjá nýjar tölur hverju sinni.

Hvar lenda þeir á kosningaseðilinum sem ég kýs ekki?

Þeir lenda allir saman í neðsta sæti, fyrir neðan þann sem þú settir neðst á kjörseðilinn.

Get ég strikað yfir frambjóðanda?

Það er ekki hægt í dag. Kannski seinna!

Hægt er að ná fram svipuðum áhrifum með því að raða öllum öðrum frambjóðendum á kjörseðilinn og sleppa bara þeim sem þú vildir strika yfir.

Þetta hefur hinsvegar þann ókost að þá er verið að kjósa stóran hóp fólks sem þú kannski hefur enga raunverulega skoðun á. Til að taka farsakennt dæmi um af hverju það gæti verið varhugavert: þú vildir "strika yfir" Stalín, en til þess greiddirðu Hitler atkvæði (af því að þú vissir ekkert um hann). Þá hefði kannski verið betra að sleppa þessu alveg?

Um talningu og úrslit

Hvernig eru atkvæðin talin?

Að kosningu lokinni eru atkvæðin talin sjálfvirkt af kosningakerfinu og bráðabirgðaniðurstaða birtar á síðu kosningarinnar um leið og talningu er lokið. Niðurstaðan er birt með fyrirvara, því ef frambjóðendur hafa dregið framboð sitt til baka meðan á kosningum stóð eða vilja færa sig neðar á lista þá getur þurft að endurtelja eða umraða listanum áður en lokaniðurstaða fæst.

Við talninguna sjálfa, notast listakosningar Pírata við svokallaða Schulze aðferð. Lesa má um Schulze á Wikipedia, en Andrés Helgi Valgarðsson skrifaði eftirfarandi lýsingu á aðferðinni:

Þetta er samanburðarkosning, svo maður raðar þeim sem maður vill í röð. Kerfið telur svo bara, þegar það er að raða fólki, hversu oft manneskju A er raðað fyrir ofan manneskju B, og hversu oft manneskju B er raðað fyrir ofan manneskju A, og fylgir svo meirihlutanum. Það skiptir t.d. engu máli hversu mörg sæti eru á milli. Allir sem þú raðar, hvort sem þeir eru efstir eða neðstir hjá þér, teljast sigra þá sem eru annaðhvort neðar en þeir, eða eru alveg óraðaðir. Svo síðasti maður sem þú raðar (þó það væri í 90. sæti) telst líka sigra alla sem þú raðar ekki. Svo ef það er einhver sem er þér sérstaklega ólystugur, þá er betra að sleppa því að raða þeim en að setja þá í neðsta raðaða sæti. Alveg eins, ef þú þekkir einhvern sérstaklega vel og vilt setja þá ofarlega, þá skemmir það ekki fyrir öðrum sem þú raðar ofarlega, nema akkúrat þegar verið er að bera þau saman við þann sem þú settir efst.

Þarf ekki að staðfesta kosningarnar og af hverju ekki?

Þetta fer eftir lögum Pírata og aðildarfélaga.

Margar kosningar þarfnast ekki staðfestingar, en þó virðist vera að skapast hefð fyrir því að staðfesta lista með ályktun sem kosið er um í kosningakerfinu nokkrum dögum eftir að prófkjöri lýkur. Ef þetta fyrirkomulag reynist vel er líklegt að það verði bundið í lög með lagabreytingu í framtíðinni.

Öryggi og nafnleynd

Hvað ef maður gleymir notendanafinu sínu?

Hægt er að skrá sig inn með kennitölu eða netfangi, í stað notendanafns.

Hvað ef maður gleymir lykilorði sínu?

Hægt er að "endurstilla lykilorð", með því að gefa upp netfangið sem var notað við skráningu. Leiðbeiningar og endurstillingarkóði verða þá sendar með tölvupósti.

Geta aðrir séð hvað ég kýs?

Kosningakerfið sýnir engum nema þér atkvæði þitt - nema þú gefir öðrum upp notendanafn þitt og lykilorð!

Það er því mikilvægt er að muna að skrá sig út úr kosningakerfinu, til að tryggja nafnleynd atkvæðisins.

Meðan á kosningu stendur, er atkvæði þitt geymt í gagnagrunni og er tæknilega mögulegt að rekja það til þín. Þetta er nauðsynlegt til að þú getir skoðað atkvæðið og breytt því fram að lokum kosninganna. Um leið og atkvæðagreiðslu lýkur og talning hefst er þessi tenging rofin og atkvæðið gert nafnlaust.

Kerfisstjóri kosningakerfisins getur í neyð flett upp gögnum í gagnagrunni, þar með talin atkvæði í yfirstandandi kosningum. Kerfisstjórar kosningakerfisins hafa allir skrifað undir trúnaðaryfirlýsingu og það þætti verulegur trúnaðarbrestur er kerfisstjóri myndi skoða kjörgögn í neinum tilgangi öðrum en að laga bilanir í kerfinu sem gætu ógilt kosninguna.

Get ég skoðað kjörseðlana að kosningum loknum?

Hrá kjörgögn (atkvæði) eru geymd nafnlaust, til að hægt sé að endurtelja ef þess þarf, en einungis kerfisstjóri hefur aðgang að þessum gögnum í dag. Skiptar skoðanir eru milli félagsmanna um hvort birta ætti nafnlausa kjörseðla að kosningum loknum.

Slík birting myndi veita kerfjisstjóra nokkuð aðhald og myndi auðvelda ítarlegri greiningu atkvæðanna, en hefur þann ókost að þá veikist nafnleynd kosninganna að því leyti að kjósendur munu geta sannað fyrir öðrum hvernig þeir kusu, sem aftur býður hættunni heim hvað varðar kúgun og mútur. Félagsmenn eiga eftir að taka afstöðu til þess hvort þeir telja vega þyngra, en þar til ákvörðun liggur fyrir verður farið með kjörgögnin sem trúnaðarmál og einungis þeir sem hafa skrifað undir trúnaðaryfirlýsingu og hafa brýna þörf munu fá aðgang að þeim.

Hverjir hafa aðgang að kerfinu?

Meðan á prófkjörum stendur er aðgangur að gagnagrunni kerfisins takmarkaður við þá kerfisstjóra sem ekki eru í framboði. Í prófkjörunum 2016, var þetta einungis forritarinn Bjarni Rúnar Einarsson. Aðgangur að gagnagrunnsvélinni er takmörkuð með bæði SSH dulritun og lista yfir hvaða IP tölur mega tengjast vélinni beint.

Valdir fulltrúar framkvæmdaráðs (ritari og formaður), sem og framkvæmdastjóri Pírata hafa takmarkaðan aðgang að kerfinu. Aðgangur þeirra dugir til að breyta lýsingum og dagsetningum og greiða úr algengustu vandræðum fólks við að skrá sig inn og nýta kosningarétt sinn, en þau hafa engan aðgang að kjörseðlum eða gagnagrunninum sjálfum. Kerfið heldur sjálfkrafa skrá með sögu breytinga sem unnar eru með þessum aðgangi.

Eru til afrit af kosningagrunninum? Hverjir hafa aðgang að þeim?

Tekin eru sjálfvirk öryggisafrit af kosningakerfi Pírata á hverri nóttu. Afritin eru geymd ódulrituð í sólarhring, til að kerfisstjóri geti brugðist við bilunum. Eldri afrit eru dulrituð og flutt á aðra vél til langtímageymslu. Dulritunin er framkvæmd með lykli sem einungis framkvæmdastjóri félagsins hefur undir höndum, en framkvæmdastjóri hefur engan beinan aðgang að afritunum sjálfum.

Framkvæmdastjóri og kerfisstjóri þurfa því að vinna saman til að sækja og lesa eldri öryggisafrit.

Clone this wiki locally